9.9.2007 | 11:59
Groetjes uit Gent
Loksins kominn sunnudagur, ég elska sunnudaga. Við ákváðum að vera heima í dag og sofa út eftir langa og stranga viku. Kennslan hjá mér er að komast af stað, og svo er ég búin að vera vinna mikið í hótela og veitinga bransanum undanfarið. Hitti meira að segja Íslendinga um daginn, sem voru á ráðstefnu um byggingarefni, steypu og kalk og svoleiðis, og ég var í því að bera fram mat og drykki til þeirra. Alltaf gaman að hitta Íslendinga.
Svo er nú búið að ganga ýmislegt á hér í götunni. 14 ára drengur var stunginn af skólafélögum sínum á hálsinn síðasta þriðjudag, og hann liggur enn í kóma og í lifshættu á spítala. Alveg ótrúlegt hvað krakkar eru farnir að gera í dag. Kannski ekki skrítið með alla þessa ofbeldis tölvuleiki og bíómyndir. Börnin læra víst það sem fyrir þeim er haft. Allavegana, hér var fullt af lögreglu og sjúkrabílum í marga kluukutíma, og að sjálfsögðu allar sjónvarpsstöðvarnar mættar í götuna þriðjudag og miðvikudag. Á fimmtudaginn þurfti svo slökkviliðið að mæta hingað í götuna með miklum látum, enda bíll í björtu báli hér beint fyrir utan gluggann okkar. Þessu er nú vonandi lokið í bili.
Síðasta sunnudag fórum við í dagsferð til Lille í Frakklandi, en það er ekki nema tæpur klukkutími þangað með lest héðan frá Gent. Fyrsta helgin í september er fræg í Lille fyrir risastóran útimarkað. Einskonar flóamarkaður, en þetta er sá stærsti í Evrópu, og hann nær yfir 100 km takk fyrir. Við náðum nú ekki að sjá nema lítinn hluta af honum, enda bara nokkra klukkutíma á vappinu. Ansi falleg borg nema hvað það var allt of mikið af fólki til að geta notið fegurðarinnar almennilega. Þessa helgi er líka skelfisk hátið, og allir bjóða upp á skelfisk og franskar kartöflur á spottprís, skeljunum er svo safnað saman í stórar hrúgur hér og þar um borgina, ferlega spes að sjá. Og lyktin eftir því... Ég setti inn nokkrar myndir, ef þið viljið sjá...
Skólinn fer svo alveg að byrja og ég er farin að hlakka til, svei mér þá. Búin að kaupa mér pennaveski, strokleður og allskonar dót, svo ég er tilbúin í slaginn : )
læt þetta duga í bili...
hafið það gott,
Sveinhildur
Athugasemdir
Já, ég elska sunnudaga líka, þeir eru flottir. Man einmitt eftir svona dögum í Rott. Göngutúrar í miðbænum og heimsóknir til vinanna.
Helga Björg Arnardóttir (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 20:38
Úff, farið nú varlega.
Við vorum í réttum síðasta sunnudag, rosa stuð en okkar sunnudagar hér heima fara samt mjög oft í heimsóknir eða bjóða í heimsókn.
Kv. Linda
Linda (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.